Greinasafn fyrir merki: Ragnar Ómarsson

Viðeyjarklaustur 17ándi Novimbris anno 1534

Heilögu systkin.

Ástæða þess að ég rita yður þetta bréf er sú að í sex nætur hefir mig dreymt mjög undarlega drauma. Hafa draumar þessir sótt mjög á mig og voru þeir svo skýrir sem veruleikinn sjálfur. Það er jafnlegt draumum þessum að þeir varða Hans Heilagleika Páfa, en aldrei þó þann sama. Slík var framkoma þeirra að eigi þykir sæmandi Páfastól. Skora ég því á yður að sýna engum bréf þetta því það gæti þótt guðlast. Þar eð þér eruð að nema hin guðlegu fræði í Flórens vildi ég bera fyrir yður drauma þessa og spyrja hvort þeir eigi við rök að styðjast. Ég er maður berdreyminn. Hef ég þá draumrakningar mínar:

(C) Ragnar Ómarsson

Fyrsti draumur.

Mér fannst sem ég svifi inn í kapellu eina glæsilega svo ég hefi eigi annað séð. Með mér gekk maður glæsilega búinn sem sæmir prinsum. Sjálfur var ég forkunnlega búinn purpura og pelli svo ég hefi eigi annað borið um ævina. Kenndi ég að maður sá er með mér gekk var bróðir minn. Álengdar sá ég mann og kenndi ég hann einnig. Það var Hans Heilagleiki Sánkti Sixtus IV Páfi. Mér þótti hann greiða mönnum nokkrum fé og var það gildur sjóður. Fyrir ofan þá stóð líkneski grafið og sýndi það atburð þann er Júdas kyssti Krist í Getsemane-garðinum. Mennirnir sem tóku við fénu urðu okkar varir og sóttu að oss. Báru þeir allir vopn og ísaumað merki á brjósti klæða sinna. Kenndi ég þar merki Pazzi ættarinnar frá Flórens. Skyndilega var sem signing stæði yfir og þjónaði Hans Heilagleiki Páfinn fyrir altari. Mennirnir vógu nú að oss en Hans Heilagleiki lagði blessun sína yfir þá. Mér tókst að verjast og hörfaði bak við altarið en bróðir minn var veginn fyrir fótum Hans Heilagleika svo að blóðið lagði yfir fætur hans. Í bræði minni bölvaði ég Pazzi ættinni en þá sneri Hans Heilagleiki Páfinn sér að mér og hrópaði reiðilega: „Lorenzo de Medici þér eruð bannfærður fyrir guðlast í húsi drottins.

Og við það vaknaði ég.

Annar draumur.

Mér fannst sem ég væri epli í munni á steiktu svíni sem stóð á langborði einu í stórum glæstum sal. Fyrir miðju borði sat Hans Heilagleiki Innocent VIII Páfi og honum á hægri hönd herra Kardínáli Borgia, Kanselráð yfir Curia. Fannst mér sem hann væri að ausa gulli og silfri úr perluskreyttri skál, en í annan stað fannst mér það vera saur og gall. Jós hann þessu yfir Hans Heilagleika þannig að þegar Hans Heilagleiki leit á hann var það gull og silfur, en þegar Páfi leit af honum, var það saur og gall. Við vinstri hlið Hans Heilagleika sat yngri maður og var það Franceschetto, launsonur hans. Var hann feitur mjög og át stöðugt af yfirhlöðnu veisluborðinu um leið og hann flekaði unga tvíbura, dreng og stúlku. Af og til sneri hann sér að föður sínum sem blessaði hann en sonurinn ældi í kjöltu hans. Þeir virtust vera í hrókasamræðum meðan þessu fór fram. Í fyrstu greindi ég eigi hvað þeim fór í milli en þar kom að ég fékk heyrn og í því sneri Hans Heilagleiki Páfinn sér að herra Borgia og mælti: „Brúðkaup sonar vor var oss Páfastóli dýrkeypt, svo að hver sjóður er nú tæmdur. Hafið þér minn kæri Borgia eigi eitthvert ráð sem duga skal sjóðum vorum til björgunar?“ Þá mælti Borgia: „Skoðað hefi ég málið og vil ég það til leggja yðar hátign að fjölgað verði kardínálaembættum í Vatíkaninu og skulu þau föl hæstbjóðanda. Einnig að leggja niður aflífanir syndara í ríki þínu en þungar sektir teknar í staðinn, því drottinn vor sækist eigi eftir dauða syndara heldur frekar að hann greiði fyrir þær og lifi.“ Þá mælti Hans Heilagleiki: „Guðs mildi og blessun er að hafa yður í minni þónustu“ og veitti honum blessun sína. En í sama vetfangi teygði sonur hans sig eftir mér og það síðasta sem ég man var ferlegt gin hans áður hann gleypti mig í einum bita.

Og við það vaknaði ég.

Þriðji draumur

Það fannst mér sem ég væri staddur á torginu gegnt Péturskirkju og var þar fjölmenni mikið. Það virtist sem fögnuður mikill væri meðal fólksins. Ég gekk að manni einum sem svalg stórum úr kaleik svo flóði niður kufl hans. Ég innti hann eftir hver efni stæðu til veislunnar. Hann svaraði: „Nú er vika liðin síðan Herra Borgia var kjörinn Páfi og hefur hann tekið sér nafnið Alexander VI. Þessa viku hefir hann haldið Rómarbúum veislu mikla og hefir hvergi verið til sparað og eigi skort mat eður vín. Í dag er síðasti veisludagurinn og hefir Hans Heilagleiki lofað mjög óvæntri sýningu sem mun flixibub haxeme jodlibomm.“ Þá tók mannfjöldinn að öskra og æpa og heyrði ég eigi hvað maðurinn sagði. Sá ég hvar Hans Heilagleiki stóð á torginu miðju skrautbúinn með rauða skikkju um öxl. Fylgdarsveinar voru með honum og báru sumir sverð en aðrir lensur og riðu þeir stórum hvítum gæðingum. Var nú leitt fram í böndum naut eitt mikið og mannýgt. Slógu sveinar Hans Heilagleika skjaldborg um hann en nautið var leyst. Leitaði það á mannfjöldann allt í kringum torgið og felldi. Riddararnir leituðu eftir því og reyndu að koma á það lagi. Var það stundum að þeim tókst það en í annan stað urðu menn fyrir. Varð mannfall mikið. Gekk svo um hríð og tók þá að mæðast nautið. Þar kom að nautið lagðist niður í sárum og gekk Hans Heilagleiki þá úr skjaldborginni með sverð í hönd og hjó af nautinu höfuðið.

Og við það vaknaði ég.

Fjórði draumur

(C) Ragnar Ómarsson

Það fannst mér sem ég væri staddur í stórum dimmum sal sem á voru 18 dyr. Undir arminum bar ég körfu eina hvar í voru tvö gullepli. Ég var klæddur sem Kardínáli, í rauðum silkikyrtli með rauðan hött á höfði. Ég gekk að einni hurðanna, opnaði og gekk eftir löngum breiðum gangi. Gangurinn var lýstur glitrandi stjörnum og á veggjum voru myndir úr Edensgarði. Við enda gangsins kom ég að stóru gullnu hliði sem glóði í skini stjarnanna. Hliðið laukst upp og ég gekk inn. Fannst mér sem ég stigi inn til Himinríkis. Fyrir framan mig stóð risavaxin himinsæng., tjölduð silkihvítum voðum. Gekk ég nær og sá þá mann svipljótan mjög liggja umvafinn skýhnoðrum í sænginni. Það var Hans Heilagleiki Alexander VI Páfi. Beygði ég höfuð mitt fyrir honum og kyssti hring hans og færði honum gulleplin tvö. Hann tók móti þeim og reif þau í sig og glotti ferlega. Ég mælti: „Yðar háæruverðuga tign, hví hafið þér svo stór augu eður hvaðan hafið þér slíkar loðnar hendur og klær? Og hvernig fenguð þér svo stór eyru og slíkt ferlegt úlfsgin?“ „Það get ég sagt yður Rauðhöttur góður að slíkt telst eigi löstur meðal vor páfa því vér höfum velþóknun guðs og blessun“ mælti páfi og hló ferlega. Þá mælti ég: „Flýjum vér erum í úlfshöndum.“

Og við það vaknaði ég.

Fimmti og sjötti og síðasti draumur

Það fannst mér sem ég væri staddur í lystigarði í Bologna. Í draumi þessum hafði ég engan líkama en þó sjón og heyrn. Tvær nætur dreymdi mig draum þennan. Fyrir framan mig stóð risastór bronsstytta af manni í silkiserk með krossmark á brjóstinu og hélt á konungsmerki í vinstri hönd en sverði í hægri. Á fótstallinum stóð letrað: „Júlíus II Páfi – Stofnandi Páfadóms og bjargvættur.“ Skyndilega hóf styttan upp raust sína og kvað:

„Þið hermenn helgaðir.
Helgaðir sverði Guðs.
Dagur refsingarinnar,
refsandi handar Guðs ríður til höggs.
Skerpið eggjar og
dragið eigi.
Frakknesk höfuð fjúka.
Frakknesk höfuð fjúka.
Ég vil bað.
Bað í frönsku blóði.
Fuori i barbari!
Fuori i barbari!”

Um stund ríkti þögn, sem rofin var af jarðruski. Fyrir fótum styttunnar reis upp úr jörðinni önnur stytta gerð úr marmara. Það var Laocoön laus úr prísund snákanna og hann hrópaði:

„Annaðhvort,
leynast Grikkir í þessum hesti.
Eða hann er herbragð,
njósn og vél.
Til að eyða vorri borg.
Vélráð eru hulin í honum.
Treystið þessu eigi Trójubúar.
Trúið ekki þessum hesti,
hvað sem hann er.
Ég óttast Grikki,
færandi gjafir.“

Sá ég þá spúandi snáka tvo skjótast upp úr jörðinni og réðust þeir á Laocoön og vöfðu sig um hann og drógu hann til sín ofan í jörðina. Gnýr mikill gekk þá og dynur svo að styttan af Júlíusi féll af stalli. Loftið fylltist púðurreyk og í gegnum mökkinn greindi ég stóran hóp Frakkneskra hermanna sem ruddust inn í garðinn. Gerðu þeir elda mikla og tóku styttuna og bræddu. Steyptu þeir þar úr bronsi því kanónu og fallstykki mikil og skutu af á borgina.

Og við það vaknaði ég.

(C) Ragnar Ómarsson

 

deViðeyjarklaustur, 17ter November anno 1534