Snjall

Eftirfarandi er mjög gamalt ráð: „Skorti þig fótana til að ferðast skaltu ferðast inn á við.“

Sá sem ætlar að gera höggmynd neyðist til að ákveða hvernig hann ætlar að fara að. Á höggmyndin að verða til úr engu með því að bæta sífellt við meira efni eða á að höggva hana úr stórri heild, eitt stykki í einu?

Þar sem ásetningur og aðgerð mynda eina heild skulum við fyrst spyrja hvaða forsendur liggja að baki aðgerðinni og hvaða markmiðum er reynt að ná með henni því þannig er stefnt að ákveðnum endi frá upphafi. Fyrst þarf að átta sig á markmiðinu og síðan að útbúa kerfi til að ná því.

Munurinn á ákveðnu markmiði og óljósu markmiði er sá að þegar markmiðið er tilgreint þarf að skoða hverja aðgerð fyrir sig og taka hvert skref örugglega í átt að ákveðinni útkomu. Sé markmiðið ótilgreint er það hins vegar ekki gert heldur er hvert skref stigið í óvissu. Báðar aðferðir eiga það sameiginlegt að á endanum ætti að verða til höggmynd.

Tungumálið er ekki aðgerð heldur aðeins hluti af aðgerð. Spurningin er hvort að einhver hluti aðgerðarinnar þarfnist tungumálsins til að aðgerðin megi færast nær markmiðinu, hvort aðgerðin geti náð markmiðum sínum án tungumálsins eða hvort að tungumálið geti jafnvel komið í veg fyrir að markmiðinu sé náð.

Öll mannleg tungumál eiga það sameiginlegt að samanstanda aðeins af einingum og hver eining, hvort sem hún er nafnorð, sagnorð, lýsingarorð eða forsetning byggir undantekningarlaust á samanburðarkerfi sem tekur til afmarkaðs fjölda merkja en sú afmörkun myndar landamæri tiltekins tungumáls.

Essentielles_Wesen_2
[De anima. IV 5, 120]

Þó öll orð séu samanburðarhæf er eðli einstakra hluta og nákvæm merking þeirra í huga fólks ósambærileg. Því má bæði segja að samanburður sé nauðsynlegur til að hægt sé að fullyrða nokkuð en líka að allar fullyrðingar eru í raun aðeins fullyrðingar um samanburð.

Þá vakna spurningar um notagildi tungumálsins fyrst það getur ekki ákvarðað raunverulegt eðli viðfangsefnisins og því verður eðlinu aldrei lýst nákvæmlega. Viðfangsefnið verður ekki fyrir þessum flækjum því sjálft eðli þess er ósnortið.

Fjöldi talaðra og skrifaðra setninga sem þróuðust í svokölluðum siðmenntuðum ofurlífverum fjölgaði með veldisaukningu á aðeins nokkur hundruð árum og gerðu okkur kleift að upplifa þekkingaröflun sem fæst af læsi en læsi á ekkert skylt við hæfni, skynsemi, gjafmildi, réttlæti eða göfuglyndi en í versta falli stendur læsi í vegi fyrir hæfni, skynsemi, gjafmildi, réttlæti og göfuglyndi. Hefði sá sem fann upp á sameiginlegum vitsmunum stundað vísindalegar rannsóknir á hegðun vatnakarfa í torfum í stað þess að túlka sjálfskipuð samskipti maura hefði sá hinn sami líklega ekki gert þá villu í ályktun sinni að rugla saman vitsmunum og hæfni.

Í heild sinni mætti túlka þær stuttu hugleiðingar sem hér eru settar fram sem tóma vitleysu, nema aðgerðin krefjist þess að tungumálið sé notað til að ná markmiðinu og því sé höfundur tilneyddur til að fremja þann glæp að sóa dýrmætum tíma sínum í einangrun í herbergi fyrir framan tölvuskjá á meðan fingurnir vefa setningar og augun nema aðrar setningar.

Unbenannt-19-RTil að átta sig á umfangi glæpsins er nóg að líta á spegilslétt yfirborð Álftavatns. Sá sem hefur aldrei séð frummyndina telur spegilmyndina nákvæma og næga eftirmynd af því sem þar speglast.

Fyrir ekki svo löngu síðan tíðkaðist að bjóða ferðalöngum gistingu á íslenskum bóndabæjum. Sá sem hefur upplifað einangrun íslenskra bóndabýla veit að í kyrrðinni þroskast vitsmunirnir og sá sem stefnir þangað veit að af þeirri þekkingu má læra. Áreynsla eykur athyglina. Áreynsluleysi eykur fáfræðina.

Þeim dögum á bóndabænum þar sem við tvö gátum skipst á þekkingu og reynslu var því fagnað. Það er trúleg ályktun að þessir sjaldgæfu dagar hafi valdið því að Ísland er svo ólíkt öðrum löndum og má þar sem dæmi nefna að í orðaforða íslensku í dag vantar orð yfir 1. persónu fleirtölu í nefnifalli þar sem við er í raun gömul tvítöluorðmynd.

Þetta er einmitt aðgerðin sem krefst þess að tungumál sé notað til að ná settu markmiði: að bjóða ferðalanga að á hér svo við tveir megum skiptast á þekkingu og reynslu. Því miður einskorðast þetta boð við þá ferðalanga sem tala íslensku eða þýsku því þýða þarf alla texta yfir á annaðhvort tungumálið og sjóðir til að fjármagna þýðingar eru takmarkaðir.

Þar sem við vitum ekki hverjir og hvort einhverjir ferðalangar þiggja að á hér er markmiðið með því að skiptast á þekkingu og reynslu enn óþekkt. Hvert skref færir okkur nær því óþekkta.

Því segjum við: Áfram veginn!

Bernhard Pangerl, Útgefandi

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *