Allar færslur eftir Björn Eriksson

Sandkaka

(c) Zen&Senf

Uppi í dalnum fyrir ofan sundlaugina á Seyðisfirði voru tvö tröll að prakkarast í hraunsandinum.

„Leikum leik veranna. Gerum ráð fyrir að börn þessara vera leiki sér í sandkassa, rífist, steli leikföngum hvers annars, lumbri hvert á öðru og blandi sandkökurnar sínar með vatni sem gerir sandkassann ónothæfan til leikja þar sem hann verður fljótlega fullur af drullu,“ sagði annað tröllið og henti nokkrum litlum gjallmolum í sandinn. „Sjáðu, þarna birtist skyndilega á töflu róluvallarins texti eins og ósýnileg hönd hafi skrifað hann: „Þú skalt ekki blanda vatni við sandkökur í sandkassanum og ekki slást. Fara skaltu eftir þessum reglum,“ og þar sem börnin eru ennþá ólæs, les eigandi róluvallarins þetta fyrir þau. – Núna fer hann. – Sjáðu, þarna kemur umsjónarmaður.“

(c) Zen&Senf

„Allt í lagi,“ sagði hitt tröllið og tók þar með þátt í leiknum og setti einn stóran gjallmola við hlið mörgu, litlu gjallmolanna: „Flestir hætta að drullumalla og slást. En það á bara við um flesta, ekki alla. Það þýðir að þeim verður ekki aðeins refsað af hinum heldur líka af umsjónarmanninum. Þó þau rífist ekki lengur um málið, berja þau afbrotamanninn þeim mun harðar þar sem hann hefur ekki aðeins blandað sandkökurnar sínar með vatni heldur einnig hunsað eina regluna með gjörðum sínum.“

„Það má ekki horfa framhjá því. Hins vegar hefur nokkur friður komist á í sandkassanum, börnunum til mikillar gleði. Þau eru sem sagt þegar byrjuð að gera greinarmun. Það þarf samt að leiðrétta það að börnin og þar með umsjónarmaðurinn geti hunsað annað boðorðið vegna þess að einhver hefur brotið fyrsta boðorðið, finnst þér það ekki? Gerum þá ráð fyrir að á töflunni á róluvellinum birtist skyndilega texti eins og hann hafi verið skrifaður af ósýnilegri hönd: „Hugsaðu um tilfinningar þínar því þær geta orðið til þess að þú blandir sandköku með vatni eða berjir einhvern. Láttu stjórnast af kærleika.“ Þar sem börnin eru enn ólæs og þar sem umsjónarmaðurinn neitar að lesa textann þarf eigandinn aftur að sinna því verkefni. Sjáðu, þarna kemur ein mamman,“ sagði fyrra tröllið og bætti öðrum stórum gjallmola í hópinn.

„Frábært. Sjáðu nú þetta!“ hrópaði annað tröllið hissa. „Því miður hefur staðan aðeins versnað núna. Ekki bara verða afbrotabörnin barin af hinum heldur er nú hafin barátta milli móðurinnar og umsjónarmannsins að ástæðulausu þar sem umsjónarmaðurinn sagði að aðeins fyrra boðorðið gilti en móðirin vill meina að bæði boðorðin séu gild. Sjáðu bara, þetta gengur svo langt að umsjónarmaðurinn og móðirin leita nú fylgismanna meðal barnanna. – Og nú berja þau hvort á öðru – og nú leyfir móðirin fylgismönnum sínum að berja á öðrum fylgismönnum sínum. Fylgismenn umsjónarmannsins berja sömuleiðis líka hina fylgismenn hans. Eru þau þá blind, heyrnarlaus og skilningsvana?“

„Við munum einmitt geta sannreynt það því sjáðu bara, þarna birtist annar texti á töflu leikvallarins. Viltu lesa hann?” spurði hitt tröllið.

Kannið einnig ásetning ykkar, þaðan sem tilfinningarnar koma sem geta valdið því að þið blandið vatni við sandkökur eða berjið aðra. Þekktu sjálfan þig með sannleika,” las seinna tröllið.

„Sérð þú þetta líka?“ spurði fyrra tröllið: „Eigandinn þarf að lesa þetta aftur því nú neita bæði umsjónarmaðurinn og móðirin að gera það. – Þarna kemur líka einn afinn!“

Annað tröllið kastaði enn einum stórum gjallmola í hraunsandinn: „Sjáum til hvort nú verði loksins komið á friði. Þetta ætti að vera nógu skýrt núna. – Ótrúlegt. Nú rífast umsjónarmaðurinn, móðirin og afinn jöfnum höndum og berja hvert annað ásamt eigin fylgismönnum. Trúirðu þessu!“

„En heimskulegt,“ sagði hitt tröllið í uppgjafartón: „Það er ekki meira pláss á töflunni á leikvellinum fyrir fleiri bókstafi, ekki eitt orð, hvað þá heila setningu og enginn hugsar um textann hvort sem er.“

„Þau þurfa heldur ekki fleiri texta,“ og þannig lauk annað tröllið leiknum: „Verurnar hafa sýnt að þær vilja ekki skilja þetta. Þær vilja frekar bara gera það sem þær langar, hvort sem um er að ræða barn, afa, mömmu eða umsjónarmann. Þar með hefur verið sannað að einum bókstaf í viðbót væri ofaukið. Setningarnar standa óbreyttar eftir atburðina. Þær voru þó meira en vináttuvottur.“

„Ég hef líka tekið eftir þessu,” sagði vinur hans og klifraði undir steininn: „Þær buðu hins vegar líka upp á möguleika fyrir verurnar til að kynnast sjálfum sér og skilja sig.“

„Jæja, kennisetjarinn hefur blindað þau gagnvart eigin veruleika. Þetta er svo leiðinlegt, leikum einhvern annan leik,“ og undan steininum hljómaði:

Ósnotur maður
er með aldir kemur,
það er best að hann þegi.
Engi það veit
að hann ekki kann,
nema hann mæli til margt.
Veita maður
hinn er vætki veit,
þótt hann mæli til margt.
1)

Síðan var þögn.

1) „Hávámál og Völuspa“, Gísli Sigurðsson, Svart á Hvítu, Reykjavik 1986 

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

Þegar fullorðnir leika

(c) Zen&Senf

Á leiðinni frá flugvellinum að dvalarstað sínum heyrði ferðalangur einn ákaft tal tveggja trölla, Kreddu og Kenningar sem stóðu á bak við stein.

Kredda hóf leikinn og sagði: „Leikum verurnar. Við segjum: „Sannleikurinn er sá að þessi teketill er ekki til,“ sem er raunveruleikinn. Vandinn er sá að við vitum þetta vel en hinir vilja ekki trúa því. Ef við segðum aðeins sannleikann myndum við tala þar til við værum bláar í framan og þyrftum að bíða þar til einhver áttaði sig á því að allt sem við segðum væri í raun og veru sannleikurinn. Það mun aldrei gerast því eins og við vitum er fólkið þrjóskt, heimskt og illa innrætt. Við erum þær einu sem höfum opinn huga og erum vitrar og góðar því við höfum skilið sannleikann eins og okkur var sagður hann. Þar sem við erum þær einu í þessum heimi sem eru þannig og verðum áfram þær einu, mun sannleikurinn heldur aldrei verða til þess að aðrir öðlist sömu innsýn ef fram heldur sem horfir. Því er okkur vandi á höndum.“

Hinu tröllinu, Kenningu, fannst leikurinn skemmtilegur og tók þátt: „Þarna gefst þó ákveðinn möguleiki. Við tökum þá afstöðu að það sé staðreynd að það er enginn teketill og notum til þess alla þá vegu sem eru færir til að dreifa skilaboðum og bera kennsl á málið. Við bönnum því alla frjálsa umræðu, skilgreinum þessa afstöðu sem óvéfengjanlega og sanna staðreynd og sýnum ekkert umburðarlyndi fyrir neinum frávikum.“

Kredda greip inn í: „Það er allt saman gott og blessað. En til þess þarf maður völd því sá boðskapur að ekki sé til neinn teketill hefur engin völd né möguleika á að öðlast völd. Og við höfum heldur engin völd.“

„Það er ekkert mál að leysa það,“ fullyrti Kenning: „Til eru verur sem hafa völd eða leitast við að hafa völd. Við gerum samkomulag við þær. Við færum þeim lögmætið sem fylgir sannleikanum og sem löngun þeirra í vald og stöðu þarfnast með þessum boðskap okkar sem hinir einu sönnu boðberar sannleikans og því verður tillögum þeirra hlýtt möglunarlaust. Í staðinn fáum við valdið …“

„Snilld! Og ef þær hlýða ekki þá brennum við þær með tevatninu og troðum telaufum upp í þær uns þær kafna í þeim. Þetta er gott plan,“ sagði Kredda með glampa í augunum.

„En þar með sönnum við þvert á sannleikann og boðskapinn að við drekkum te!“ skaut Kenning inn í.

„Hvaða máli skiptir það? Ertu búinn að gleyma að við erum hinir einu, sönnu boðberar sannleikans? Við höfum völdin, lögmætið og úrræðin til að réttlæta það. Við segjum bara að við höfum neyðst til þess. Skilurðu?“ og þannig lauk fyrra tröllið leiknum. „Komdu, drekkum te úr tekatlinum og syngjum. Það er svo þreytandi að leika þessar verur.“

Voðir mínar
gaf eg velli að
tveim trémönnum.
Rekkar það þóttust
er þeir rift höfðu:
Neis er nökkvinn halur.
1)

Þannig urðu verurnar að eldjötnum.

1) „Hávámál og Völuspa“, Gísli Sigurðsson, Svart á Hvítu, Reykjavik 1986 

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

Sápukúla

(c) Zen&Senf

Tröllin Viturmaður og Barn sátu á steini austan við Sveinstinda og köstuðu litlum steinvölum í Langasjó.

Barn: „Ég verð að segja þér hvað ég sá niður á Kirkjubæjarklaustri í dag. Barn eitt blandaði saman í glas sápu og vatni, tók rör og blés í sápulögin sem varð til.“

Viturmaður: „Það heitir að blása sápukúlur.“

Barn: „Hver sápukúla skildi sig frá þeirri næstu með þunnri filmu af vatni. Sápukúlurnar voru mismunandi stórar og litlar. Þær voru heldur ekki allar jafnkringlóttar en þó voru þær svipaðar á einhvern hátt. Stundum leystist þunna filman á milli tveggja sápukúlna upp og til varð ein, sameinuð, stærri sápukúla. Auk þess urðu stundum til fleiri nýjar sápukúlur úr sápukúlunum.“

Viturmaður: „Láttu mig þekkja það.“

Barn: „Eftir stutta stund byrjuðu sápukúlurnar að öðlast vitund og ein og ein sápukúla fór að hugsa um mikilvæga hluti og deila hugsunum sínum og upplifun með öðrum. Glasið fylltist af þúsundum upplýsinga, til dæmis hvað bæri að gera til að þunn vatnsfilma sápukúlunnar yrði fallegri, hvernig hindra mætti að maður springi of snemma eða hvernig koma mætti í veg fyrir að tvær sápukúlur yrðu að einni eða ein að mörgum. Aðrar sápukúlur veltu fyrir sér hvort það væri gott eða vont að tvær sápukúlur sameinuðust til að mynda eina eða þegar ein sápukúla yrði að mörgum. Aðrar svipað þenkjandi sápukúlur sem voru að takast á við það vandamál að hafa ekki (að eigin mati) nægilegt pláss, sameinuðust öðrum sápukúlum og stóðu sameinaðar gegn hverri þeirri sápukúlu sem gerði sig líklega til að véfengja plássið þeirra. Ef einhver tók ekki þátt eða leit út fyrir að ætla ekki að standa með þeim, þá krömdu þær viðkomandi og deildu þunnri filmunni á milli sín.“

Viturmaður: „Þetta er allt mjög hefðbundið.“

Barn: „Vitibornu sápukúlurnar komu sér saman um að þær þyrftu grundvöll til að skilja það sem væri í gangi. Þær deildu því sem þær skynjuðu í einingar, ákváðu hvað kæmi á undan og eftir og þróuðu kerfi og rökfræði til að skapa grundvöll fyrir samanburðarstaðhæfingar.“

Viturmaður: „Það er mjög sniðugt.“

Barn: „Margar sápukúlur voru lamaðar af ótta um að þær yrðu ekki jafnstórar og hinar en sumar stóru sápukúlurnar óttuðust hins vegar að þær yrðu litlar og reyndu að koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum. Hér og þar var sápukúla sorgmædd yfir stöðu sinni og margar eyðilögðu sig jafnvel sjálfar af þeim sökum. Aðrar sápukúlur litu svo á að þær hefðu fengið of lítið, að þær hefðu ekkert fengið af því sem þær áttu rétt á og vörðu sig fullum hálsi, fóru í fýlu eða sprikluðu um til þess að aðrar sápukúlur leiðréttu ástandið.“

Viturmaður: „Eðlilega.“

(c) Zen&Senf

Barn: „Vitrustu sápukúlurnar fylgdust með þessum atburðum á grundvelli kerfisins og rökfræðinnar og þróuðu hvort tveggja enn frekar. Þær skilgreindu sápukúlur út frá þunnri filmu þeirra og innra rými sápukúlnanna og útbjuggu lýsingu og skýringar út frá því á innra rými sápukúlunnar, yfir rýmið sem sápukúlan tók, þá atburði sem bar fyrir augu, ákveðinn tímapunkt fyrir upphaf og endi sápukúlunnar, frá því sápukúla var og þar til hún var ekki og yfir sápukúlur sem urðu til úr engu, því þó þær væru ekki til í augnablikinu benti allt til þess að þær yrðu til síðar.“

Viturmaður: „Skynsamlegt.“

Barn: „Öðrum sápukúlum stóð ekki lengur á sama um þetta allt saman og eyddu því tímanum í að gera grín að litnum á þessari eða hinni sápukúlunni sem þeim fannst vera „skakkur“ eða elta aðra sápukúlu sem virtist vera sérstaklega „heit“ á litinn.“

Viturmaður: „Skiljanlega.“

Barn: „Skyndilega varð allt hljótt. Allar sápukúlurnar féllu saman. Þær sameinuðust í grátt, fitugt löður, lágu þéttar saman í einum, einsleitum massa, án þunnu filmunnar sem afmarkaði þær, án glitrandi lita og sameinaðar í hreyfingarleysi sínu slettust þær í glasið sem óspennandi sápulöður. Barnið sem hafði fylgst með þessum fyndna, litríka, öra og líflega gjörningi með glampa í augunum, var hætt að blása.“

Viturmaður: „Það hef ég líka séð.“

Barn: „Aðeins ein agnarsmá sápukúla sat föst í örvæntingu sinni á glasinu, fann endalokin nálgast, sá rörið við munn barnsins og lungu þess fyllast aftur af lofti.“

Viturmaður: „Ertu með sápu, vatn og glas? Mig langar að leika.“

Viturmaður og Barn söngluðu á meðan þau blésu í glasið sitt:

Meðals notur
skyli manna hver:
æva til snotur sé.
Því að snoturs manns hjarta
verður sjaldan glatt,
ef sá er alsnotur er á.

1) „Hávámál og Völuspa“, Gísli Sigurðsson, Svart á Hvítu, Reykjavik 1986

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

deSeifenblase

Lítið á enda

(c) Zen&Senf

Ekki langt frá Hvanngili dönsuðu þrjú tröll, Durgur, Bófi og Barefli í kringum stein einn og léku uppáhaldsleikinn sinn, leik veranna.
Við dansinn í kringum steininn sungu Durgur, Bófi og Barefli lag sitt í kór:

„Það er svo gott,
að við erum
ekki til í raun,
því við myndum alltaf
draga það strá
sem styttra væri.“

Barefli: „Hvert er umkvörtunarefni yðar?“

Durgur: „Það geta allir staðfest að ég var alltaf heiðarlegur. Nú er ég kominn á þann aldur að ég er farinn að ganga frá veraldlegum málum mínum og þess vegna stend ég hér. Þessi vera segir að ég skuldi peninga fyrir dauða minn. Ég þarf að greiða leigu fyrir mitt dauða hulstur. Hann er líkræningi og ég ásaka hann því um þjófnað.“

Bófi: „Við þurfum að standa straum af kostnaði vegna dauða hans. Líkami hans þarf pláss, það þarf að viðhalda kirkjugarðinum, við sem samfélag töpum verðmætri lóð og hann tekur plássið frá einhverjum öðrum. Ég fer aðeins að lögum. Þegar einhver hendir rusli í ruslafötu þarf líka að greiða fyrir það. Hann er bara ekkert annað en slugsi.“

Barefli: „Hvernig getið þér, Durgur, eytt tíma okkur hér út af slíku smámáli? Ég skil þetta ekki heldur. Sá ásakaði er aðeins að fylgja lögum og rétti. Hann er þræll laganna, réttarins vegna. Þér getið því ekki ákært hann heldur lögin sjálf. Ég verð að vísa kæru yðar frá þar sem ekki er við þann ákærða að sakast í þessu máli.“

Durgur: „Hann er böðull. Ég á tilkall til þess grundvallarréttar sem dauði minn er og hann skal álitinn slíkur. Hvernig má það vera að með því að nýta mér náttúrulegan rétt minn verði ég mér úti um verulegar skuldir?“

Barefli: „Ég er líka böðull orðsins og líka þræll laganna, réttarins vegna. Auk þess þurfið þér ekki að greiða skuldina. Ættingjar yðar þurfa að greiða skuld yðar.“

Durgur: „Með náttúrulegum rétti mínum, dauðanum, borga ég sanngjarnt verð fyrir fæðingu mína. Skuldin hefur því verið jöfnuð út. Skuldir mínar til ríkisins vegna tilvistar minnar hér hafa einnig allar verið greiddar auk alls þess sem ég skuldaði öðrum. Þér vitið einnig að peningaskuldir sem af dauða mínum stafa eru aðeins til komnar laganna vegna, ekki réttlætisins. Að innheimta slíkar peningaskuldir af ættingjum mínum vegna þeirrar staðreyndar að ég hafi dáið er blygðunarlaus hagnýting á guðhræðslu þeirra. Þó þetta sé ekki þeirra skuld, heldur aðeins skuld þeirra samkvæmt lögum, er þeim skylt að greiða skuldina og þar af leiðandi er engin undankoma möguleg undan skuldinni sem er ekki þeirra.“

Barefli: „Þannig er þetta bara. Annars vantar fleira upp á ákæru yðar. Lögin okkar boða að það atriði sem véfengja á með ákæru þarf að hafa átt sér stað áður en hægt er að kæra atburðinn. Það er óvéfengjanlegur grundvöllur laganna. Hér, eins og þér sjáið sjálfir, hefur þetta ekki átt sér stað í tilfelli yðar. Hér er því enginn grundvöllur til ákæru. Ég verð því að vísa kæru yðar frá samkvæmt lögum og reglu.“

Durgur: „Get ég sem sagt bara borið upp kæru mína hér eftir að ég er dáinn?“

Barefli: „Svona er þetta bara. Samkvæmt lögunum er það samt sem áður ekki mögulegt því þó að grundvöllur til ákæru sé þá til staðar er enginn ákærandi lengur til staðar og samkvæmt lögum má enginn leggja fram kæru eftir andlát sitt og því þyrfti einnig að vísa þeirri kæru frá. Saksóknari gæti í því tilfelli lagt fram kæru fyrir yðar hönd en til þess þyrfti hann að geta stuðst við lögin. Þér þurfið því að snúa yður að löggjafanum.“

Durgur: „En það gætu liðið margir áratugir þar til nægilega margir eru kosnir á þing sem trúa því að hinir dauðu ættu ekki að greiða leigu eftir dauða sinn. Þegar maður lítur einnig til þeirrar staðreyndar að þing samfélagsins hefur hag af því að rukka leigu af þeim sem deyja, og að starfsmenn þingsins, eins og sá ákærði hérna, græða á því, og þegar maður hugsar til þess að þér sjálfir, hæstvirtur dómari, gegnið forystuhlutverki á umræddu þingi og eigið þar af leiðandi hagsmuna að gæta í málum er varða að þingið, þ.e.a.s. að rukka dauðaleigu af þeim sem deyja, er nokkuð ljóst að ég verð löngu dáinn og rotnaður áður en að því kemur.“

Barefli: „Mér þykir þetta ólán yðar líka leitt. Þetta fylgir þeirri áhættu sem allir taka með lífinu. Við verðum öll að fara að lögum og reglu. Hvernig færi fyrir okkur ef við gerðum það ekki? Þér getið sannarlega borið upp kæruna við dómara þinn á áfangastað. Vinsamlegast standið upp. Eftirfarandi dómur fellur í rétti þessum: Kærunni er vísað frá … ákærandi greiðir allan málskostnað.“

Durgur: „Verurnar tala um lög og réttlæti en fara frekar að lögum en réttlæti…“

Barefli: „…þannig verða lög að óréttlæti, náttúruréttur…“

Bófi: „… að mannréttindum, lýðræði…“

Durgur, Bófi og Barefli: „… að einræði fjöldans og lífið að gamalkunnum leik með of litlum prikum.“

“Þveginn og mettur
ríði maður þingi að
þótt hann sét væddur til vel.
Skúa og bróka
skammist engi maður
né hests in heldur,
þótt hann hafit góðan.” 1)

1) „Hávámál og Völuspa“, Gísli Sigurðsson, Svart á Hvítu, Reykjavik 1986 

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

deBedenke das Ende

Án smásjár

(c) Zen&Senf

Tvö: „Þeir segja að hann hafi skapað verurnar í sinni eigin mynd.“

Tröllið Eitt hallaði sér aftur í Hafi Kyrrðarinnar, aftur í rykið, leit á þessa bláu plánetu sem flaut yfir sjóndeildarhring alheimsins, þakin hvítum blaktandi fánum og sagði íhugult: „Maður þarf örugglega mjög góða smásjá til að skoða hversu mikið í eigin mynd þær eru.“

Tvö: „Hið algilda þjónar hinu afstæða eins og ofmat þjónar auðmýkt.“

 

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

deOhne Mikroskop

Vera með fullri meðvitund

Ferðalangur: „Við höfum nú kynnst heilmiklu um þessar verur og eftir stendur spurningin: hvað gerir það að verkum að þessar verur eru svo ólíkar öðrum tegundum?“

Hugsuður: „Jæja, líklega má þar helst nefna það sem yfirleitt kallast mannleg samskipti.“

Ferðalangur: „Hvað útskýrir þá fílskúna sem stendur við hlið kynsystur sinnar sem er að fæða kálf til að verja hana mögulegum árásum rándýra þar sem hún er ófær um að verja sig sjálf í þeirri stöðu?“

Hugsuður: „Gott og vel. Kannski er þar á ferðinni fyrirbærið sem yfirleitt kallast samkennd.“

Ferðalangur: „Og hvað kallast þá viðbrögð plantna sem sýna merkjanleg viðbrögð við því þegar nágrannaplöntur þeirra eru drepnar með eitri?“

Hugsuður: „Fari vísindin til helvítis. Eftir stendur það sem flestir kalla sál.“

Lljósmynd: © Kári Þór Jóhannsson, Fiskbúð Sjávarfangs

Ferðalangur: „Og hvað myndi það kallast sem fær mörgæs til að vernda hluta af rotnuðum leifum einstaklings af sinni eigin tegund fyrir árásum hrææta til þess eins að leifarnar verði ekki étnar af hræætunni og mörgæsin lætur sig jafnvel hafa árásir hræætunnar á meðan hún neitar að sleppa rotnuðum leifunum?“

Hugsuður: „Eins og þú vilt. Þá er aðeins eftir það sem flestir kalla vitsmuni.“

Ferðalangur: „Þú meinar að það sé hæfileikinn sem greini verurnar sérstaklega frá öðrum tegundum?“

Hugsuður: „Já.“

Ferðalangur: „Þú hefur rétt fyrir þér. Verurnar eru nefnilega eina tegundin sem hefur ástríðufulla löngun til að þurrka út sína eigin tegund með nokkrum tökkum.“

Hugsuður: „Jæja, rökhyggjan sér til þess að þær halda sig frá því skrefi.“

Ferðalangur: „Áttu við það sem bjó upprunalega til þennan hæfileika?“

Hugsuður: „Þá er það einfaldlega það ástand sem kallast að vera með fullri meðvitund.“

Ferðalangur: „Er það virkilega?“

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

deSich seiner selbst bewusst sein

Samtímalegur textinn

Vísindalega upplýsingaþjóðfélagið

Í upphafi
: stafrófið

a b c d e f g h i j k l m n o b q r s t u v w x y z
orð, setning, málsgrein, …

Málfræðin
: „kveikja á, slökkva á“

01001100  01101110  01101100

Stafrófsröðin
: Emoji –
umbreytast í hugsuð

denker-mutiert-zu-emoji

Staðfesting

akzeptanzsuche

Álit er þekking
… , Trump, Urbi et Orbán, Frau Kepetry, …

: ærandi þögn,
eðaich-lach-mich-weg

 

deZeitgenössischer Text

Landshornaflakkari

troll-imadeWEB-1Litli gesturinn við bakkann á litla læknum hafði tekið ákvörðun: það er skynsamlegt að gera greinarmun á skynvillu og raunveruleika. Þetta væri því aðeins tálsýn, því þegar öllu var á botninn hvolft hafði þetta tré þarna í raun lifað eldinguna af og notað þaðan í frá aðeins það sem eftir var af berkinum til að búa til grænu laufin sem birtust árlega á sviðnum greinum þess.

12 ára gamall mörgum árum seinna fór hann í ferðalag um heimsálfuna með foreldrum sínum. Meðal viðkomustaða voru landamæri Þýskalands og Tékkóslóvakíu sem á þeim tíma kölluðust enn Járntjaldið. Þarna stóð hann á þessari lestarstöð í Bayerisch Eisenstein og þreifaði skilningsvana fyrir sér með augunum á öllum þessum hlutum sem fólki þótti greinilega nauðsynlegir. Því á þessum aldri gerir maður enn ráð fyrir því að fullorðið fólk geri aðeins það sem er algjörlega og ófrávíkjanlega nauðsynlegt. En á þessum aldri virðast fullorðnir upplifa allt sem nauðsyn og takmarka þannig heim möguleikanna, heim hins 12 ára.

Þá rifjaðist upp litla sagan eftir Sjón og Halldór Baldursson, “Sagan af húfunni fínu”:

Strákur sat á steini.
Þeir voru uppi í sveit, strákurinn og steinninn.
Lítil fjölskylda úr borginni átti leið hjá, pabbi og mamma með son sinn á unglingsaldri.
Þau staðnæmdust fyrir framan strákinn á steininum og góndu á hann.
Strákurinn góndi ekki á móti, honum hafði verið sagt að það væri dónalegt að góna, hann skoðaði á sér fæturna.
„Aldrei má ég sitja á steini,” sagði pabbinn.
„Steinar skíta út buxurnar manns, og svo er vont að sitja á þeim,” sagði mamman.
„Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest,” sagði sonurinn, sem var sprenglærður af unglingi að vera.
Hann leit spyrjandi á strákinn á steininum.
„Er það ekki?”

Þannig stóð þessi skólastrákur fyrir framan þessa breiðu, berangurslegu ræmu sem skar skóginn í tvo hluta fyrir framan háa girðinguna sem átti að hindra aðgang að breiðri röndinni þó ekki væri ljóst hvaða tilgangi þetta þjónaði. Það virtist ekkert þess virði að vernda á þessari breiðu ræmu, engir runnar, engin tré, engin engi sem í þýskum borgum kölluðust grasfletir og þóttu svo verðmætir að fyrir framan hverja útidyrahurð sem stóð við jaðar svona grasflatar í borgunum þurfti að setja skilti sem á stóð: „Bannað að ganga á grasinu. Foreldrar eru ábyrgir fyrir börnum sínum.“

Sýnin á hlutina sem birtast manni breytist með árunum. Þannig stökkbreytist til dæmis beljandi stórfljót síns tíma, sem eitt sinni þurfti alla mannlega krafta til að kasta stórum steini yfir, í lítinn og mjóan læk á fullorðinsárum, aðeins meter á breidd með friðsælum vatnsklið og vatnshæð sem nær vart upp í ökkla.

12 ára drengurinn stóð á lestarstöðinni í Bayerisch Eisenstein og þreifaði með skilningsvana augunum aftur á þessari háu girðingu og þessari breiðu, berangurslegu ræmu sem skar skóginn í tvo hluta. Hann velti fyrir sér hvernig dýri í skóginum liði sem kæmi skyndilega að þessari girðingu sem stæði í vegi fyrir því að það kæmist að fæðunni hinum megin sem dýrið hafði áður alltaf getað komist í. Það skipti enda ekki máli hvort dýrið væri hérna megin eða hinum megin við girðinguna, það væri engu að síður í sömu stöðu.

Það var ekki fyrr en seinna, þegar drengurinn var orðinn fullorðinn, að hann fékk svör við spurningunni um það af hverju fullorðnir bjuggu til nauðsynjar sem takmörkuðu heim möguleikanna. Svarið var að finna í setningu sem rithöfundurinn Friedrich Dürrenmatt lagði Romulus sínum í munn: Ríkið notar orðið Föðurland alltaf þegar það ætlar að fremja fjöldamorð.

Þannig varð drengurinn að því sem á Íslandi kallast Landshornaflakkari, sá sem flakkar á milli landshorna, sá sem Íslendingarnir segja að gangi á sínu eigin munnvatni.

Sá sem ferðast á milli menningarheima, ferðalangur sem eitt sinn var mjög velkominn gestur á öllum íslenskum heimilum, gestur sem skiptast mátti á viðhorfum við. Því munurinn á orðunum ferðalag og vegferð er sá að annað er samheiti yfir upplifun en hitt er samheiti yfir afþreyingu sem er ekki það sama. Hvort tveggja býður upp á skemmtun, annað vegna mistaka og af hinu verða örugglega aðrir sem vita hvað skal segja. Ekki hefur öll sýn á það sem hefur rekið á fjörur manns á ævinni breyst með árunum .

Því veit gesturinn enn þann dag í dag ekki svarið við spurningunni hvert þjóðerni hans er.

unbenannt-20Það var hann sem kastaði steinunum í beljandi stórfljótið þegar hann fann heimili sitt á hinum bakkanum: risavaxið tré sem hafði orðið fyrir eldingu. Trjástofninn var holur að innan, innviðirnir svartir og sviðnir og neðarlega á annarri hliðinni var stórt skarð, inngangur inn í þennan trjábol. Þegar sá fimm ára leit upp þar sem hann stóð uppréttur innan í trjábolnum, sá hann allar svörtu greinarnar í krónunni sem klæddist aftur grænum laufkjólnum. Þetta tré var besti vinur hans og þeirri fáránlegu spurningu um hverrar þjóðar hann væri – svaraði hann af heiðarleika – sama og þetta tré.

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

deLandshornaflakkari

Menntun, gáfur og siðmenning

troll-imadeWEB-1Tilvera: „Það er ljóst að siðmenningin hófst ekki fyrr en fólk fór að lesa og skrifa. Maðurinn á rétt á menntun.“

Ónytjungur: „Hvaða meinarðu með að lesa og skrifa? Hvort ertu að tala um lestrarhæfnina eða skriftarkunnáttuna?“

Tilvera: „Án skriftar er lestur útilokaður.“

Ónytjungur: „Ef ég man rétt þá stóðu kristilegir trúboðar fyrir lestrar- og skriftarkennslu áður fyrr til að geta fært biblíuna til fólksins á þeirra eigin tungumáli. Þannig varð til dæmis kyrillíska letrið til. Um hvaða bók snýst þetta núna?“

Tilvera: „Þetta snýst um að maðurinn eigi rétt á menntun.“

Ónytjungur: „Var ekki nóg að nota mynd til menntunar?“

Tilvera: „Til að geta skapað sér mynd er þörf á greind.“

Ónytjungur: „Hvað meinarðu með greind?“

Tilvera: „Til eru mismunandi afbrigði greindar.“

Ónytjungur: „Hver segir það?“

Tilvera: „Greindarvísitalan.“

Ónytjungur: „Meinarðu Rorschach-prófið sem notað er í greindarrannsóknum?“

Tilvera: „Þetta eru vísindi. Aðeins með lestar- og skriftarkunnáttu er hægt að ná hærri greindarvísitölu.“

Ónytjungur: „Fyrst greind er nú mælanleg og menntun er aðeins möguleg með lestri og skrift þá hef ég nokkrar spurningar sem ég hef lengi verið að velta fyrir mér án þess að hafa fundið svar við.“

Tilvera: „Láttu þær koma, ég hlusta.“

Ónytjungur: „Gæti ólæs maður búið til flókna, rafknúna vél?“

Tilvera: „Nei.“

Ónytjungur: „Hvernig liti flugvél út sem ólæs maður hefði búið til?“

Tilvera: „Líklega eins og fjaðrakjóll en við vitum að enginn gæti flogið slíkri vél.“

Ónytjungur: „Þá væri hann vafalaust líka of heimskur til að skilja hvað þyrfti að gera til að láta tvo atómkjarna renna saman.“

Tilvera: „Hvílík hugmynd! Ég gæti það ekki einu sinni sjálf og ég er mjög vel lesin. Það væri aðeins á færi einhvers með enn hærri greindarvísitölu en ég.“

Ónytjungur: „Og til hvers lærðirðu þá að lesa? Til að geta lesið um að einhver annar geti látið tvo atómkjarna renna saman?“

Tilvera: „Til dæmis.“

Ónytjungur: „Og um að til eru flugskeyti sem þurfa aðeins hálftíma til að komast hálfan hringinn í kringum hnöttinn?“

Tilvera: „Það eru mikilvægar upplýsingar.“

Ónytjungur: „Af hverju?“

Tilvera: „Þá veit ég hve langan tíma ég hef til að finna skjól.“

Ónytjungur: „Skjól fyrir hverju?“

Tilvera: „Fyrir kjarnorkusprengju.“

Ónytjungur: „Ertu að segja mér að siðmenningin hafi hafist með lestrar- og skriftarkunnáttunni og að maðurinn eigi rétt á menntun svo að hann geti, til dæmis, komist í skjól í tíma fyrir kjarnorkusprengju sem menn á grundvelli árangursríkrar lestrar- og skriftarkunnáttu og hærri greindarvísitölu hafa fundið upp, smíðað, sett upp og notað?“

Tilvera: „Það sagði ég aldrei.“

Ónytjungur: „En er það ekki þannig, 70 árum eftir Hiroshima og Nagasaki, þegar allt kemur til alls?“

Tilvera: „Til þessa hafa bæði þau 1.200 meiriháttar óhöpp sem og hinar einu, tvennu tölvuviðvaranirnar á viku, sem verða í Bandaríkjunum, alltaf farið vel.“

 Ónytjungur: „Og hvers vegna minnir þetta mig á þjófinn sem ákvað að brjótast inn í hús nágrannans næstu nótt með þeim rökum að innbrotin hefðu hingað til alltaf farið vel og hann hefði aldrei verið staðinn að verki?“

Tilvera: „Af því að þú ert heimskingi.“

Ónytjungur: „Það er þá eitthvað gott við að vera heimskingi. Sagði ég þér nokkurn tímann frá því að móðir Alberts Camus hafði aðeins 400 orða orðaforða?“

Tilvera: „Og hvaða ályktun dregurðu af því?“

Ónytjungur: „Að ekki er öruggt að orðaforði upp á 40.000 orð geri menn greindari aðeins mælskari.“

Tilvera: „Ertu að dæma Albert Camus?“

Ónytjungur: „Hvernig dettur þér það í hug? Ef ég man rétt erum við að tala um greindarrannsóknir, um fólk sem á grundvelli árangursríkrar lestrar- og skriftarkunnáttu og hærri greindarvísitölu fundu upp, smíðuðu, settu upp og höfðu í hyggju að nota kjarnorkusprengjuna þína, um þjóf sem ákvað að brjótast inn í hús nágrannans að nóttu til með þeim rökum að innbrotin hefðu nú alltaf farið vel þar sem hann hefði aldrei verið staðinn að verki, og um þig því þú telur að siðmenningin hafi hafist með lestri og skrift og þess vegna eigi maðurinn rétt á menntun.“

Tilvera: „Á hann kannski ekki rétt á henni?

Ónytjungur: „Það er ekki málið. En ég get aðeins talað fyrir sjálfan mig. Og ég hef nú þegar heyrt það sem ég þarf til að  ákveða að það sé þó betra að vera heimskur og ég vil frekar tala um fólk sem hefur áunnið sér traust mitt. Greind er ekki til í fleirtölu.

þýðandi: Maria Huld Pétursdóttir

deBildung, Intelligenz und Zivilisation

frÉducation, intelligence et civilisation

ukEducation, intelligence and civilisation

Skilningslaus

Troll_Illu_1Sá leitandi spurði eitt sinn gamlan mann hvað honum kæmi fyrst í huga þegar hann hugsaði um orðin skilningur, skynsemi, skynjun, notagildi, raunveruleiki, ímyndun, trú, menntun og rökhugsun.

Unbenannt-17Sá gamli hallaður sér aftur að trjábolnum og muldraði: „Það má berja það inn í höfuðið á fólki þúsund sinnum á dag að þau sitji ekki á kyrrum og rólegum fleti heldur þeytist á ógnarhraða í kringum sól.

Það má láta fólk lesa þetta upphátt, leggja þetta á minnið og jafnvel sannfæra það um að þetta sé staðreynd en það breytir því ekki að á hverjum degi er fólk algjörlega með það á hreinu í óhagganlegri vissu sinni að upp yfir þennan kyrra og rólega flöt þeirra, mitt í allri kyrrðinni, rís sólin.

Fer þá lítið fyrir skilningi, skynsemi, skynjun, notagildi, raunveruleika, ímyndun, trú, menntun og rökhugsun.“

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

deVerständnislos

ukIncomprehensible

frIncompréhensif