Menntun, gáfur og siðmenning

troll-imadeWEB-1Tilvera: „Það er ljóst að siðmenningin hófst ekki fyrr en fólk fór að lesa og skrifa. Maðurinn á rétt á menntun.“

Ónytjungur: „Hvaða meinarðu með að lesa og skrifa? Hvort ertu að tala um lestrarhæfnina eða skriftarkunnáttuna?“

Tilvera: „Án skriftar er lestur útilokaður.“

Ónytjungur: „Ef ég man rétt þá stóðu kristilegir trúboðar fyrir lestrar- og skriftarkennslu áður fyrr til að geta fært biblíuna til fólksins á þeirra eigin tungumáli. Þannig varð til dæmis kyrillíska letrið til. Um hvaða bók snýst þetta núna?“

Tilvera: „Þetta snýst um að maðurinn eigi rétt á menntun.“

Ónytjungur: „Var ekki nóg að nota mynd til menntunar?“

Tilvera: „Til að geta skapað sér mynd er þörf á greind.“

Ónytjungur: „Hvað meinarðu með greind?“

Tilvera: „Til eru mismunandi afbrigði greindar.“

Ónytjungur: „Hver segir það?“

Tilvera: „Greindarvísitalan.“

Ónytjungur: „Meinarðu Rorschach-prófið sem notað er í greindarrannsóknum?“

Tilvera: „Þetta eru vísindi. Aðeins með lestar- og skriftarkunnáttu er hægt að ná hærri greindarvísitölu.“

Ónytjungur: „Fyrst greind er nú mælanleg og menntun er aðeins möguleg með lestri og skrift þá hef ég nokkrar spurningar sem ég hef lengi verið að velta fyrir mér án þess að hafa fundið svar við.“

Tilvera: „Láttu þær koma, ég hlusta.“

Ónytjungur: „Gæti ólæs maður búið til flókna, rafknúna vél?“

Tilvera: „Nei.“

Ónytjungur: „Hvernig liti flugvél út sem ólæs maður hefði búið til?“

Tilvera: „Líklega eins og fjaðrakjóll en við vitum að enginn gæti flogið slíkri vél.“

Ónytjungur: „Þá væri hann vafalaust líka of heimskur til að skilja hvað þyrfti að gera til að láta tvo atómkjarna renna saman.“

Tilvera: „Hvílík hugmynd! Ég gæti það ekki einu sinni sjálf og ég er mjög vel lesin. Það væri aðeins á færi einhvers með enn hærri greindarvísitölu en ég.“

Ónytjungur: „Og til hvers lærðirðu þá að lesa? Til að geta lesið um að einhver annar geti látið tvo atómkjarna renna saman?“

Tilvera: „Til dæmis.“

Ónytjungur: „Og um að til eru flugskeyti sem þurfa aðeins hálftíma til að komast hálfan hringinn í kringum hnöttinn?“

Tilvera: „Það eru mikilvægar upplýsingar.“

Ónytjungur: „Af hverju?“

Tilvera: „Þá veit ég hve langan tíma ég hef til að finna skjól.“

Ónytjungur: „Skjól fyrir hverju?“

Tilvera: „Fyrir kjarnorkusprengju.“

Ónytjungur: „Ertu að segja mér að siðmenningin hafi hafist með lestrar- og skriftarkunnáttunni og að maðurinn eigi rétt á menntun svo að hann geti, til dæmis, komist í skjól í tíma fyrir kjarnorkusprengju sem menn á grundvelli árangursríkrar lestrar- og skriftarkunnáttu og hærri greindarvísitölu hafa fundið upp, smíðað, sett upp og notað?“

Tilvera: „Það sagði ég aldrei.“

Ónytjungur: „En er það ekki þannig, 70 árum eftir Hiroshima og Nagasaki, þegar allt kemur til alls?“

Tilvera: „Til þessa hafa bæði þau 1.200 meiriháttar óhöpp sem og hinar einu, tvennu tölvuviðvaranirnar á viku, sem verða í Bandaríkjunum, alltaf farið vel.“

 Ónytjungur: „Og hvers vegna minnir þetta mig á þjófinn sem ákvað að brjótast inn í hús nágrannans næstu nótt með þeim rökum að innbrotin hefðu hingað til alltaf farið vel og hann hefði aldrei verið staðinn að verki?“

Tilvera: „Af því að þú ert heimskingi.“

Ónytjungur: „Það er þá eitthvað gott við að vera heimskingi. Sagði ég þér nokkurn tímann frá því að móðir Alberts Camus hafði aðeins 400 orða orðaforða?“

Tilvera: „Og hvaða ályktun dregurðu af því?“

Ónytjungur: „Að ekki er öruggt að orðaforði upp á 40.000 orð geri menn greindari aðeins mælskari.“

Tilvera: „Ertu að dæma Albert Camus?“

Ónytjungur: „Hvernig dettur þér það í hug? Ef ég man rétt erum við að tala um greindarrannsóknir, um fólk sem á grundvelli árangursríkrar lestrar- og skriftarkunnáttu og hærri greindarvísitölu fundu upp, smíðuðu, settu upp og höfðu í hyggju að nota kjarnorkusprengjuna þína, um þjóf sem ákvað að brjótast inn í hús nágrannans að nóttu til með þeim rökum að innbrotin hefðu nú alltaf farið vel þar sem hann hefði aldrei verið staðinn að verki, og um þig því þú telur að siðmenningin hafi hafist með lestri og skrift og þess vegna eigi maðurinn rétt á menntun.“

Tilvera: „Á hann kannski ekki rétt á henni?

Ónytjungur: „Það er ekki málið. En ég get aðeins talað fyrir sjálfan mig. Og ég hef nú þegar heyrt það sem ég þarf til að  ákveða að það sé þó betra að vera heimskur og ég vil frekar tala um fólk sem hefur áunnið sér traust mitt. Greind er ekki til í fleirtölu.

þýðandi: Maria Huld Pétursdóttir

deBildung, Intelligenz und Zivilisation

frÉducation, intelligence et civilisation

ukEducation, intelligence and civilisation

Skilningslaus

Troll_Illu_1Sá leitandi spurði eitt sinn gamlan mann hvað honum kæmi fyrst í huga þegar hann hugsaði um orðin skilningur, skynsemi, skynjun, notagildi, raunveruleiki, ímyndun, trú, menntun og rökhugsun.

Unbenannt-17Sá gamli hallaður sér aftur að trjábolnum og muldraði: „Það má berja það inn í höfuðið á fólki þúsund sinnum á dag að þau sitji ekki á kyrrum og rólegum fleti heldur þeytist á ógnarhraða í kringum sól.

Það má láta fólk lesa þetta upphátt, leggja þetta á minnið og jafnvel sannfæra það um að þetta sé staðreynd en það breytir því ekki að á hverjum degi er fólk algjörlega með það á hreinu í óhagganlegri vissu sinni að upp yfir þennan kyrra og rólega flöt þeirra, mitt í allri kyrrðinni, rís sólin.

Fer þá lítið fyrir skilningi, skynsemi, skynjun, notagildi, raunveruleika, ímyndun, trú, menntun og rökhugsun.“

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

deVerständnislos

ukIncomprehensible

frIncompréhensif

Tala hátt og snjállt!

troll-imadeWEB-1 Tala hátt og snjállt?

Í milljarða ára hefur hvert nýfætt barn, hvar og hvenær sem það fæddist getað skilið eiginleika tungumálsins á mjög skömmum tíma, án nokkurrar leiðsagnar eða þróaðra uppeldisfræðilegra æfinga.

Öll mannsbörn, hvar og hvenær sem þau fæðast, þurfa aðeins að heyra málfræðilega réttar setningar tungumáls sem þau þekkja ekki í 15 mínútur en að þeim tíma loknum ber hvert nýfætt barn, hvar og hvenær sem það fæðist, kennsl á hverja þá málfræðilega röngu setningu þessa óþekkta tungumáls sem kemur í kjölfarið.

Ég kalla þessa hæfni vitrænan skilning og tel hana algjörlega nauðsynlega því án hennar gæti enginn sjónrænn skilningur orðið til og án sjónræns skilnings er maðurinn algjörlega ófær um að þekkja til dæmis epli og myndi þar af leiðandi deyja úr hungri.

Ég vil því halda því leyndu að ég er einn þeirra sem hefur misst þessa færni með tímanum því ég skammast mín of mikið til að viðurkenna að ég er heimskari í dag en daginn sem ég fæddist.

Entwicklung_des_Gehirns
[Dr. Kipp, Háskóli Saarland, 2006]
Notagildi setningar er fólgið í merkingu hennar. Setning samanstendur af orðum (táknum) sem bera inntak, þ.e.a.s. það sem er raunverulega vísað í (vísimið), ásamt hugmyndum okkar um það (hugtök). Til að orð þjóni tilgangi sínum þurfa þau að tengjast ákveðnum hugtökum en séu mismunandi hugtök tengd einu og sama vísimiðinu þarf að útbúa nýtt tákn sem bætir upp það sem vantar upp á fyrra táknið. Þetta á sérstaklega við þegar táknið ber óhlutbundna merkingu en þá má velta fyrir sér hvort táknin eigi yfir höfuð rétt á sér til að byrja með.

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

deSprich laut und deutlich

ukSpeak loud and clear

frParlez haut et fort

 

Inngangur

GirardotFrumforsendur Svæðisþekkingar urðu til með mats- og rýnisaðferðum Catalyse og byggja á þremur atriðum:

 • Að taka til greina þarfir tilheyrandi samfélags sem og byggja framkvæmdarverkefni á þeim.
 • Að stuðla að þátttöku sem sameinar alla þekkingu, laðar fram samvinnu þeirra sem vilja og þeirra sem geta og hvetur fólk til að vinna saman að því að yfirstíga afmarkanir, aðskilnað og ósætti.
 • Vísindalegar aðferðir. Samskiptagrunnur um upplýsingatækni gefur hagsmunaaðilum tækifæri til að vinna innan tengslanets þrátt fyrir fjarlægðir og ólíka geira. Notkun vísindalegra tóla eins og margþættra greiningaraðferða og áþreifanlegrar framsetningar veitir þá nauðsynlegu fjarlægð sem getur stuðlað að nýjum verkefnum. Þessi tól verða síðan gagnleg fyrir hagsmunaaðila til að koma verkefnum sínum á framfæri og að lokum framkvæma og meta aðgerðirnar. Þeir munu einnig geta haft betra eftirlit með svæðum sínum og fengið betri framtíðarsýn.

Eins og svo oft vill verða voru verkefnin á sínum tíma undir hæfileikum hagsmunaaðila komin, eða það sem verra var, verkefni voru hönnuð af umsjónarmönnum sem voru oft of fjarri vettvangi. Þessi áhersla á þarfir reyndist fljótt koma heim og saman við hugmyndafræðilegan ramma sjálfbærrar þróunar. Catalyse var síðan fljótt að ávarpa ótta hagsmunaaðila og notenda með þremur siðferðilegum frumforsendum: einkalífi, samvinnu og þátttöku.

Samvinnuverkefni Doubs-sýslu þar sem Catalyse var þróað af rannsóknaraðilum og hagsmunaaðilum kallaðist Mosaïque og var eitt af 40 tilraunaverkefnum þriðja evrópuverkefnisins gegn fátækt. Í kjölfarið kom Horizon, fyrsta evrópuverkefnið sem vann að efnahagslegri og félagslegri samlögun. Mosaïque varð fyrir valinu eftir að svæðismat á RMI (tryggð lágmarksinnkoma) sýndi fram á flóknar og fjölþættar þarfir RMI-bótaþega í samhengi við samfélagslegu og efnahagslegu krísuna á 9. áratugnum. Framlögin tæmdu félagsþjónustukerfið og yfirskyggðu ýmis félagsþjónustuverkefni og aðkomu almennra og opinberra hagsmunaaðila. Mosaïque hjálpaði næstum 3.000 einstaklingum sem lent höfðu á jaðri þjónustunnar og skilaði góðum árangri hvað varðaði bæði efnahagslega og félagslega samlögun. Verkefnið studdi fjölmörg frumkvöðlaverkefni á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, forvarnarstarfs og félagslegrar verndar ásamt því að styrkja stuðningskerfi á jafningagrundvelli, smálánastarfsemi og umfram allt efnahagsleg og félagsleg samlögunartengslanet. Heilbrigðiskortið, sem varð seinna að Alþjóðlegu Heilbrigðistryggingunni, var eitt þeirra úrræða. Það hefur verið endurgert víða í Evrópu s.s. í Charleroi í Belgíu. Mosaïque studdi líka upphaflega les Jardins de Cocagne, sem sýnir fram á hvernig það reiknar með vistfræðilegri nálgun jafnframt því að aðstoða þá sem lifa á jaðri samfélagsins að verða sér úti um atvinnu. Reglubundið eftirlit með Mosaïque af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins ásamt matsaðilum innanlands, hefur sýnt fram á mikilvægi félagslegrar og efnahagslegrar þátttöku ungs fólks, ómenntaðra verkamanna, eldri verkamanna og verkamanna í dreifbýlum. Frá árinu 1991 hefur Mosaïque samræmt störf sín með öðrum evrópskum tilraunaverkefnum og fyrstu atvinnustuðningsmiðstöðvunum (aðallega í Huelva, Charleroi, Auxerre og Perigueux), fyrstu evrópsku samtökunum um efnahagslega og félagslega þátttöku (REIES) sem sannfærði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um að víkka út verkefni sitt varðandi fátækt þannig að Horizon-verkefnið tæki líka til efnahagslegrar og félagslegrar samlögunar.

Með tilkomu REIES komu fram vísindalegar hugmyndir sem urðu síðar að Svæðisþekkingu og mat og eftirlit fór fram með mörgum frumkvöðlaverkefnum, þ.m.t.:

 • Félagslegt kort, svæðisbundið atvinnueftirlit og mat á borgarverkefninu „Huelva acción“ í Huelva á Spáni.
 • Mat á góðgerðarverslununum Foundation Abbe Pierre og Haltes des Amis de la Rue.
 • Mat á Mission Régionale de l‘Emploi e Charleroi (svæðisbundin vinnumálaþjónusta í Belgíu), Employer group sem veitir fólki í atvinnuleit stuðning, Qualification de Pontarlier og vinnumálastofnun Yonne.
 • Undirbúningur á endurskoðun fyrir héraðsskipulag vinnumálastofnunar Doubs.
 • Spænskt tengslanet landflutningaeftirlits í Accem á Spáni.
 • Tengslanet svæðisbundinna eftirlita við innleiðingu lágmarkslauna í Portúgal.

Árið 1998 hafði hugmyndafræði Svæðisþekkingar þróað vísindaleg markmið sín um að safna saman „allri þverfaglegri þekkingu sem hjálpar okkur að skilja svæðisbundna innviði og virkni og að verða tól fyrir atvinnumenn í sjálfbærri þróun svæða.“ Rannsóknarvinnan sem í hönd fór varð til þess að Evrópskt Tengslanet Svæðisþekkingar (European Network of Territorial Intelligence) var stofnað árið 2002 sem sameinaði rannsóknarteymi og hagsmunaaðila frá mismunandi svæðum. Seinna varð samþætting innan evrópskra vísindasamfélagsins að veruleika með Evrópsku Tengslaneti Svæðisþekkingar (caENTI) fyrir sjöttu rammaáætlun Evrópusambandsins á sviði rannsókna, tækniþróunar og tilraunaverkefna (2006 til 2009).

Catalyse-aðferðirnar hafa þróast heilmikið þökk sé vísindalegum rannsóknum CaENTI á sviði eftirlitssamvinnu svæða og þátttökulýðræðis.

Fyrir utan að bera kennsl á svæðisbundin tækifæri og tæknilegar takmarkanir (sérstaklega á smærri svæðum sem tilheyra stærri sveitarfélögum) hefur svæðisbundið eftirlit reynst vera góð heildræn aðferð við að innleiða og greina upplýsingar frá sveitarfélögum. Markmiðið er ekki lengur bundið við að hjálpa stefnumótandi aðilum að taka ákvarðanir heldur einnig að verða upplýsingatól sem er öllum aðgengilegt með það markmið að auka þátttöku.

Stjórnunarhættir eru líka mikilvægir, sérstaklega svæðisbundnir stjórnunarhættir (í tilheyrandi sveitarstjórn), til að samhæfðir ferlar til sjálfbærrar þróunar nái að hvetja til þátttöku samfélagsins í heild sinni svo að leysa megi aðsteðjandi vanda á tilsettum tíma. Svæðisþekking hefur fjarlægst hugmyndafræði um efnahagslega þekkingu sem er aðeins keyrð áfram af efnahagslegum og fjárhagslegum lögmálum. Með skýrri sýn á sjálfbæra þróun hefur svæðisþekking bætt siðferðilegum grundvallaratriðum við hugmyndafræðina þátttökulýðræði til handa, sem eru: sameiginleg uppbygging, lærdómur, samstaða, skynsemi, gagnsæi, forvarnir og gætni.

CaENTI ól af sér og fullgerði evrópskt tengslanet sem hefur vaxið úr 15 meðlimum árið 2006 í um 50 félaga árið 2009, bæði í Evrópu og um allan heim. Eftir að hafa sótt um nokkur víðtæk evrópsk verkefni sem tóku til meiriháttar samfélagslegra málefna fékk tengslanetið alþjóðlegt hlutverk sem samræmingaraðili sem kallast „International Network of Territorial Intelligence“ eða INTI og tóku þjóðir í Suður-Ameríku og Norður-Afríku mikinn þátt í verkefninu. Tengslanet í Asíu og Norður-Ameríku eru líka að bera ávöxt, bæði meðal rannsóknarteyma og innan frumkvöðlaverkefna á sveitarstjórnastigi.

Eftir að félagsleg vandamál jukust til muna í kjölfar efnahagshrunsins 2008, þegar rýrnun jarðefnaeldsneytis og röskun á umhverfi varð stöðugt stærra vandamál, hefur Svæðisþekking einbeitt sér frekar að áþreifanlegum árangri í sjálfbærri þróun. Hvernig getum við sameinað á áþreifanlegan hátt efnahagsleg, félagsleg og umhverfisvæn markmið í sjálfbærri þróun á sveitarstjórnastigi? Hvaða ferla þarf að innleiða til að svæði færist á virkan hátt, bæði samfélagslega og vistfræðilega, í átt að sjálfbærri þróun og hversu langan tíma mun það taka? Hvernig getum við styrkt varnir svæðis gagnvart efnahagslegum, samfélagslegum, menningarlegum og umhverfislegum áhættuþáttum? Yfirfærsla á samfélagslegu og vistfræðilegu sviði, breytingar á hegðun einstaklinga, aðlögunarhæfni svæðisins og hliðarstjórnsýsla eru nýju lykilhugtökin sem hafa haft gríðarleg áhrif á tillögur að Evrópuverkefnum og hafa verið helstu samskiptatæki á alþjóðlegum ráðstefnum og vinnusmiðjum á vegum INTI tengslanetsins: „Samfélagslegt og vistfræðilegt frumkvöðlastarf“ (Strasbourg, Frakkland, september 2010), „Sjálfbær efnahagur innan nýrrar þróunarmenningar“ (Liege, Belgía, september 2011). „Þekkingarsamfélag, samskipti og úrræði svæða“ (Gatineau, Quebec, október 2011), „Staðbundin og alþjóðleg atriði varnarleysis og aðlögunarhæfni“ (Salerno-Caserta, Ítalía, júní 2012), „Svæðisþekking og hnattvæðing. Spenna, breyting og umskipti“ (LaPlata, Argentína, október 2012), „Svæðisþekking, samfélagsleg og vistfræðileg umbreyting og staðbundin aðlögunarhæfni“ (Berancon og Dijon, Frakkland, maí 2013), „Samfélagslegt frumkvöðlastarf og nýir stjórnarhættir til vistfræðilegra umbreytinga“ (Huelva, Spánn, nóvember 2013) og „Í átt að sjálfbærum þekkingarsamfélögum sveitarfélaga: vogarskál aðlögunarhæfni“ Roscoff, maí 2014.

Með aðkomu sinni að vísindasamfélaginu hefur Svæðisþekking fjallað um og tekið til notkunar mikinn fjölda nýrra hugtaka sem miða að því að bæta sjálfbæra þróun s.s. þingfundi, getumöguleika, sameiginlegan flöt, umhverfisrétt, efnahagslega hringrás, o.s.frv. og leitast þannig við að ná fram samleitni innan nýs þróunarmódels sem byggir á mannlegri hegðun og miðar að leitinni að velferð fyrir hvern og einn. Það hefur líka í för með sér ný hugtök s.s. svæðisbundna verðmætaaukningu (terroir) og svæðisbundin gæði.
Markmiðið er að hvert samfélag einbeiti sér að sjálfbærri þróun með því að sameina áþreifanlega og samfélagslega samloðun, fjölmenningu samfélagsins, umhverfisvernd og efnahagsleg afköst.

Að sjálfsögðu sjást þessar nýju stefnur í nýjum verkefnum:

 • Eftirlitsstofnun með samfélagslegum og vistfræðilegum breytingum í Franche-Comte
 • Fountaines d‘Ouches, svæði í hamskiptum, Dijon í Frakklandi
 • Eftirlitsstofnun með svæðisbundnu þekkingarsamfélagi og umbreytingum í Minas í Úrúgvæ
 • Innleiðing umsjónarverkefnis sem fæst við loftslagsbreytingar í LaPlata í Argentínu
 • Eftirlitsstofnun sem bætir svæði sveitarfélagsins Ouarzazate í Morokkó
 • Endurskoðun á gæðum svæðisins Bejaia í Algeríu
 • Hlutverk kvenna í grasrótarstarfi og áskoranir við að bæta gæði umhverfis, samfélags og efnahags (Argentína, Franche-Comte, Guadeloupe)

Þannig hefur INTI bætt samstarfsverkefni svæðisbundinna þekkingarsamfélaga með því að svara kalli eftir verkefnum og með þátttöku í svæðisbundnum verkefnum. Þessi verkefni, sem þróast samhliða nýjum vísindaviðburðum, leggur til fjögur rannsóknasvið og tvö þverfagleg þemu:

 • Svæði eru hlekkur á milli landfræðilegra svæða og samfélaga sem eru að þróa með sér sjálfbærni (Háskóli Franche-Comte í Frakklandi)
 • Upplýsingar, samskipti og þekking í óhefðbundinni þróunarmenningu sem hefur velferð einstaklingsins að leiðarljósi (Háskóli Franche-Comte í Frakklandi)
 • Dagskrá yfirvalda sem skipuleggur endurbætur á innviðum og verkefni til samfélagslegra og vistfræðilegra umbreytinga (Háskóli Huelva á Spáni)
 • Líkan og eftirlitskerfi fyrir sjálfbæra þróun svæða (Háskólinn í Liege í Belgíu)
 • Varnarleysi svæða, varnarlaus samfélög og svæðisbundin aðlögunarhæfni (Háskólinn í Rennes í Frakklandi)
 • Kyn og sjálfbær þróun svæða (Háskólinn í Salerno á Ítalíu)

Á þremur sviðum verður þessi hugmyndafræði framlag á nokkrum fræðasviðum svæðisbundna þekkingasamfélagsins, í meiriháttar frumkvöðlastarfi og nýjum framlögum. Markmiðið er að auka meðvitund stefnumótandi aðila um þessi svið rannsókna og framkvæmda.

Houda Neffati og Jean Jacques Girardot


þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

ukIntroduction to Territoriale Intelligence

frIntroduction à l´íntelligence territoriale